Fjöldi óhappa í Víkinni á sunnudag

Fjöldi bíla fór útaf á veginum inn með Reynisfjalli síðdegis á sunnudag. Ljósmyndir/Þórir N. Kjartansson

Margir bílar fuku út af veginum inn með Reynisfjalli síðdegis á sunnudaginn. Suðurlandsvegur var auður og greiðfær frá Hveragerði austur á land en í Víkinni sköpuðust aðstæður sem heimamenn þekkja svo vel þegar hiti er um frostmark; snjór, krapi og hálka.

Síðdegis á sunnudag gerði vestan rok með smá úrkomu og það stóð ekki á því að um það bil tugur bíla fauk þarna útaf, þangað til að veginum var lokað.

„Til allrar lukku voru allar hópferðarúturnar farnar áður en þetta vonda veður skall á annars hefði getað farið illa. Fólkið sem í þessu lenti hefði að öllum líkindum, komist klakklaust á leiðarenda ef kominn hefði verið láglendisvegurinn í Mýrdalnum og göngin undir Reynisfjallið. Sumir bílarnir stórskemmdir eftir veltur og hurðir fuku upp og jafnvel af sumum bílunum,“ sagði Þórir N. Kjartansson, sem sendi sunnlenska.is myndirnar sem fylgja fréttinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi urðu nokkur óhöpp þarna á svæðinu síðdegis á sunnudag en eftir því sem best er vitað urðu teljandi meiðsli á ökumönnum eða farþegum þeirra.

Fyrri greinGilbert með geggjaðar tölur
Næsta greinDagný Lísa íþróttamaður ársins í Ölfusinu