Fjöldatakmarkanir rýmkaðar í réttum

Hrunaréttir 2020. Ljósmynd/Hjalti Snær Helgason

Heilbrigðisráðuneytið, í samráði við Bændasamtökin og embætti sóttvarnarlæknis, hefur ákveðið að gefa út almenna undanþágu varðandi fjöldatakmörk í réttum á öllu landinu á grundvelli þess að um kerfislega og efnahagslega mikilvæga starfsemi er að ræða.

Í stað 200 manna fjöldatakmörkunar verður nú miðað við 300 manns. Í þeim tilvikum sem frekari undanþágur eru nauðsynlegar skal óska eftir sérstakri undanþágu vegna þessa til ráðuneytisins.

Ráðuneytið ítrekar þó mikilvægi þess að í réttum sé gætt að sóttvörnum að öðru leyti og að skipuleggjendur þeirra fái upplýsingar um leiðbeiningar vegna gangna og rétta vegna COVID-19.

Fyrstu réttir á Suðurlandi eru um næstu helgi, réttað verður í Fossrétt á Síðu, Hrunaréttum og Skaftholtsréttum á föstudag og á laugardag er réttað í Skaftárrétt, Skeiðaréttum og Tungnaréttum.

Fyrri greinHlaupið líklega í hámarki á miðvikudag
Næsta greinVegum lokað vegna Skaftárhlaups