Fjöldahjálparstöð opnuð á Klaustri

Búið er að opna fjöldahjálparstöðvar í félagsheimilinu á Klaustri og Hofgarði fyrir þá sem treysta sér til að fara á þá staði. Íbúar á svæðinu eru hvattir til að hafa samband við nágranna sína og veita hver öðrum stuðning.

Almannavarnir ítreka að mikið öskufall er á svæðinu frá Mýrdalssandi og austur fyrir Freysnes í Öræfum. Þjóðvegur 1, um Skeiðarársand, er lokaður frá Kirkjubæjarklaustri að Freysnesi. Ekkert ferðafæri er á svæðinu þar sem öskufallið er mest og ekkert skyggni er til gosstöðvanna. Þeim sem ekki eiga brýnt erindi á svæðið er bent á að vera ekki á ferðinni.

Ekki er talin ástæða til að rýma svæðið en íbúar og þeir ferðamenn sem þegar eru á svæðinu hvattir til að halda sig innadyra og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Þeir sem þurfa að vera úti eru hvattir til að nota rykgrímur og hlífðargleraugu.

Búið er að virkja hjálparsíma RKÍ 1717.

Verið er að vinna í að koma rykgrímum og hlífðargleraugum til þeirra sem eru á svæðinu en það gengur hægt vegna aðstæðna á vettvangi.