Fjölbreyttara námsefni fyrir nemendur

Fyrsti hluti Námsefnisbankans opnaði formlega á samkomu sunnlenskra kennara á Selfossi í gær. Verkefnið er unnið af þremur Selfyssingum og hefur hlotið Hvatningarverðlaun Samtaka atvinnulífsins.

Námsefnisbankinn er miðlægur gagnabanki skólaverkefna á vefnum frá kennurum um allt land sem er hugsaður til að gera nám fjölbreyttara og skemmtilegra fyrir nemendur um leið og hann eykur gæði verkefna.

Leifur Viðarsson og Már Ingólfur Másson, kennarar í Vallaskóla á Selfossi, hafa unnið að þessu verkefni síðustu misseri ásamt Óskari Eiríkssyni, hugbúnaðarverkfræðingi hjá Símanum. Þeim þótti það athyglisvert í þeirri tæknibyltingu sem hefur orðið hversu lítið kennarar vinna saman að því að útbúa námsefni fyrir nemendur sína. Með tilkomu Námsefnisbankans geta kennarar á mjög einfaldan og fljótlegan hátt deilt efni sín á milli og unnið saman hvar sem þeir eru staddir á landinu sem kemur sér vel bæði fyrir nemendur og kennara.

Námsefnisbankann er því tól sem tryggir að allir nemendur fái námsefni við sitt hæfi. “Einn af stóru kostum Námsefnisbankans er sá að hann er opinn á vefnum þar sem foreldrar hafa alltaf aðgang að því efni sem börnin þeirra eru að vinna að hverju sinni og geta því fylgst vel með framvindu þeirra,” segir Leifur Viðarsson, en verkefnið komst í tíu liða úrslit í Gullegginu, Frumkvöðlakeppni Klak Innovit, og hlaut Hvatningarverðlaun Samtaka atvinnulífsins. Þá hefur Síminn einnig komið að vinnunni sem bakhjarl.

Í haust hafa þeir félagar kynnt hugmyndina fyrir kennurum á Suðurlandi og hefur hún alls staðar hlotið góðar viðtökur. “Það er ljóst að það er raunveruleg þörf á miðlægum gagnabanka fyrir alla kennara til að leggja inn og taka út,” segir Leifur og bætir við að kynningarstarfið muni halda áfram í vetur og að þeir verði á ferðinni um allt land.

Fyrsti hluti af fjórum í gangsetningarferli bankans opnaði í gær, fimmtudag, og nú geta kennarar skráð sig inn á namsefnisbankinn.is og lagt inn sín verkefni. Á næsta ári verða næstu tveir hlutar opnaðir, þ.e. leitarsíða og sérsniðin skólasvæði. Markmiðið með því að opna skilahólfið í fyrsta hluta er að koma upp stórum grunni verkefna í öllum faggreinum fyrir alla aldurshópa þegar bankinn opnar á næsta ári til notkunar fyrir kennara og nemendur.

NÁMSEFNISBANKINN

Fyrri greinBúið að opna yfir Eldvatn – gamall varnargarður brast
Næsta grein„Þær spiluðu á einhverjum eiturgufum“