Fjölbreytt verkefni fá styrk úr Kvískerjasjóði

Kvísker í Öræfum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýlega úthlutaði Kvískerjasjóður styrkjum ársins 2021. Sautján umsóknir bárust og hlutu tólf verkefni styrk að þessu sinni.

Samtals var úthlutað rúmum 7,3 milljónum króna en hæsta styrkinn 900 þúsund krónur fékk Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði til þess að miðla vísindalegri þekkingu um hop Breiðamerkurjökuls næstu 100 árin. Nýstárlegum sjónrænum aðferðum verður beitt þannig að þessi mikilvæga vitneskja eigi sem greiðustu leið að almenningi um heim allan.

Helsingjar nefndir eftir Hálfdáni og Guðrúnu eldri
Meðal annarra stykja má nefna að Kvísker ehf hlaut 700 þúsund króna styrk vegna endurhönnunar Kvískerjavirkjunar, tveir styrkir voru veittir til kortlagningar á jökullónunum sunnan við Vatnajökul, Náttúrustofa Suðausturlands hlaut 500 þúsund króna styrk til að halda uppi njósnum um skúminn og annan jafnháan til að kortleggja útbreiðslu tröllasmiðs, sem er eitt stærsta skordýr á Íslandi og finnst einungis í A-Skaftafellssýslu. Náttúrustofan hlaut einnig styrk til GPS merkinga á helsingjum en áætlað er að helsingjarnir sem merktir verða hljóti nafn eftir Kvískerjasystkinum Hálfdáni og Guðrúnu eldri.

Sjóðurinn hefur sannað gildi sitt
Hlutverk Kvískerjasjóðs er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúru- og menningarminjum í Austur-Skaftafellssýslu. Það er mat sjóðsstjórnar að sjóðurinn hafi sannað gildi sitt, verið hvati að margvíslegum rannsóknum í Austur-Skaftafellssýslu og þannig stuðlað að framhaldi þess umfangsmikla vísindastarfs systkinanna á Kvískerjum sem honum var ætlað við stofnun 2003.

Fyrri greinSunnlensku liðin töpuðu
Næsta grein„Aldrei nóg af náttúrubörnum“