Fjölbreytt dagskrá á Eyrarbakka

Jónsmessuhátíð verður haldinn á Eyrarbakka á morgun, laugardag, samkvæmt hefð.

Dagurinn byrjar með viðburðum fyrir fjölskylduna, m.a. barnadagskrá Skoppu og Skrítlu, kassaklifri og þrautabraut, ratleik og jafnframt bjóða heiðurskonur þeim yngri eitthvað gott í munn.

Yfir daginn er upplagt að bregða sér í heimsókn til gestrisinna Eyrbekkinga, láta Sibbu spá fyrir sig, reka nefið inn í Laugabúð, taka þátt í kýló eða fara á tónleika í Gónhól eða Merkigili.

Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið bjóða frían aðgang, kýr kemur í gamla fjósið og smjör verður strokkað í engjatjaldi sem fær hlutverk mjólkurhúss.

Kvöldið hefst svo með hópsöng í Húsinu, hinu fornfræga Kaupmannshúsi, og hápunktur gleðinnar er Jónsmessubrennan í fjörunni . Fólk gleðst saman og fagnar bjartri sumarnóttinni við ljúfa tóna Bakkabandsins í bland við nið hafsins.

Eyrbekkingar vonast til þess að sjá sem flesta á Bakkanum á Jónsmessuhátíðinni 2011. Nánari dagskrá er birt á www.eyrarbakki.is.