Fjölbreytni starfa meiri en talið var

Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri SASS flutti erindi um atvinnumál í Rangárþingi ytra. Ljósmynd/Aðsend

Í síðustu viku stóð sveitarfélagið Rangárþing ytra fyrir atvinnumálþingi sem haldið var á Stracta Hótel Hellu.

Yfirskrift málþingsins var „Hvað gerum við?“ en til þess að velta fyrir sér framtíðinni þá er nauðsynlegt að átta sig á því hvað við gerum í dag. Málþingið var virkilega vel sótt en boðið var uppá staðfund, ZOOM fjarfund og beina útsendingu á Facebook og sóttu þingið alls um 80 manns.

Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri hjá SASS svaraði spurningunni „Hvað gerum við?“ með glænýjum gögnum þar sem m.a. kom fram að í Rangárþingi ytra eru 864 stöðugildi við 141 tegund starfa. Fjölbreytni starfa kom mörgum á óvart. Sigurður H. Markússon nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar velti upp framtíðinni varðandi sjálfbæra matvælaframleiðslu og benti á spennandi leiðir til nýsköpunar á því sviði í Rangárþingi ytra m.a. í ljósi styrkleika svæðisins í orkuframleiðslu og þekkingu í matvælaframleiðslu.

Að lokum velti Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri upp hlutverki sveitarfélagsins í atvinnusköpun og viðbrögðum gagnvart yfirstandandi iðnbyltingu. Framsögur þessarar þriggja eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Að loknu málþingi var gestum staðfundar og ZOOM skipt í hópa þar sem lagt var upp með að svara þremur spurningum. Hvernig má ýta undir nýsköpun í atvinnulífi á svæðinu? Hverjir eru styrkleikar svæðisins sem virkja mætti betur til atvinnusköpunar? og Eru einhver grunnatriði innan svæðisins sem þarf að efla til að atvinnulíf blómstri enn frekar? Í tilkynningu frá Rangárþingi ytra segir að frábærar umræður hafi átt sér stað á fundinum og verða spurningar sem þar voru lagðar fram ásamt ítarlegum svörum sendar til atvinnu- og menningarmálanefndar sveitarfélagsins þar sem næstu skref verða tekin.

Sigurður H. Markússon nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar flutti erindi um sjálfbæra matvælaframleiðslu. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLindex opnar sína stærstu verslun utan Reykjavíkur á Selfossi
Næsta greinKosið um sameiningu samhliða Alþingiskosningum