Fjóla vill leiða D-listann í Árborg

Fjóla Kristinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Fjóla Kristinsdóttir, viðskiptafræðingur á Selfossi, býður sig fram til þess að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg í komandi sveitarstjórnarkosningum. Prófkjör flokksins fer fram þann 19. mars næstkomandi.

„Árborg er ört vaxandi sveitarfélag með fjölbreyttum þéttbýliskjörnum sem hver hefur sinn sjarma. Ábyrgur og skilvirkur rekstur er forsenda þess að sveitarfélagið megi vaxa og dafna áfram og þess vegna langar mig að bjóða fram krafta mína,“ segir Fjóla í framboðstilkynningu sinni.

„Ábyrgur rekstur er forsenda þess að sveitarfélag geti veitt þá grunnþjónustu sem íbúar þess hafa þörf fyrir um leið og leita þarf allra leiða til að stilla álögum og gjöldum á íbúa og fyrirtæki í hóf. Þegar kemur að því að styrkja tekjustofna sveitarfélagsins þurfum við að laða að okkur fjölbreytta atvinnustarfsemi og auka um leið atvinnumöguleika íbúa. Því er gríðarlega mikilvægt að innviðir sveitarfélagsins, heitt og kalt vatn ásamt fráveitumálum standi undir þeirri uppbyggingu,“ segir Fjóla ennfremur og bætir við að áherslur hennar séu á ábyrgan rekstur, bætta innviði, skilvirka stjórnsýslu, fjölgun atvinnutækifæra, störf án staðsetningar, vinna áfram af festu í skólamálum, íþróttamál, samgöngumál og umhverfismál auk þess sem hún telur mikilvægt að hlúa að málefnum eldri borgara.

„Sjálf bý ég yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu. Starfaði tæp sjö ár í Landsbankanum á Selfossi, síðast sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Áður vann ég á velferðarsviði í Ráðhúsi Árborgar og sá um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Í dag kenni ég námskeiðið Velferð í fjármálum við Fræðslunet Suðurlands ásamt því að sinna öðrum verkefnum tengdum kennslu,“ segir Fjóla.

Fjóla er fædd og uppalin á Selfossi, gift Snorra Sigurðarsyni fasteignasala og saman eiga þau þrjú börn, tengdadóttur og eitt barnabarn.

Fyrri greinVegagerðin reiknar með lokunum
Næsta greinSkjálfti á Hellisheiði fannst vel í Ölfusinu