Fjóla Signý kaupir Fætur toga

Fjóla Signý Hannesdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Fjóla Signý Hannesdóttir frá Stóru-Sandvík í Flóa hefur tekið við rekstri verslunarinnar Fætur toga á Höfðabakka 3 í Reykjavík. Verslunin er hlaupaóðum Sunnlendingum vel kunn en hún sérhæfir sig í hágæða hlaupaskóm frá Brooks og íþróttafatnaði, auk þess að bjóða upp á göngugreiningu.

Fjóla Signý festi í desember síðastliðnum kaup á heildsöluversluninni Run2 sem flytur meðal annars inn fyrrnefnda Brooks hlaupaskó. Áður hafði Fjóla Signý unnið sem framkvæmdastjóri Run2 í rúm þrjú ár. Verslunin Fætur toga hefur verið einn stærsti söluaðili Brooks á Íslandi en fréttir bárust fyrr í vikunni að verslunin hefði verið tekin til gjaldþrotaskipta. Fjóla Signý hefur nú tekið við versluninni sem mun opna á nýjan leik á morgun, 1. apríl.

Hlakkar til að opna
Fjóla Signý, sem er afrekskona í frjálsum auk þess að hafa sinnt margvíslegum þjálfarastörfum í gegnum tíðina, er vel peppuð fyrir komandi tímum.

„Ég er bara ólýsanlega spennt. Starfsemi verslananna heldur áfram í nánast óbreyttri mynd. Fætur Toga hafa veitt frábæra þjónustu síðastliðin ár við sölu á Brooks hlaupaskóm og íþróttafatnaði, en einnig í göngugreiningum. Við erum glöð að geta haldið þessari gæðaþjónustu óskertri,“ segir Fjóla Signý, í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hlakka rosalega til að opna, það verður frábært að geta þjónustað bæði gamla og nýja viðskiptavini áfram og við munum vinna áfram að því að bjóða gæðavörur á góðu verði.“

Ánægja viðskiptavina skiptir miklu máli
Fjóla Signý segir að öll sömu frábæru vörumerkin verði til sölu í búðinni. „Við verðum áfram með Brooks, Fusion, CompresSport og fleiri, sem hlauparar og útivistarfólk á Íslandi þekkja vel. Ánægja viðskiptavina Fætur Toga skiptir okkur miklu máli og þeir sem pantað hafa innlegg áður en verslunin lokaði munu fá þau afhent eins fljótt og mögulegt er eftir enduropnun. Auk þess munu gjafabréf, sem fólk átti áður, gilda áfram í versluninni,” segir hún að lokum.

Fjóla Signý er sjálf öllum hnútum kunnug þegar kemur að íþróttum og hlaupum, en hún hefur keppt fyrir Íslands hönd í grindahlaupi og fleiri frjálsíþróttum í rúman áratug ásamt því að sinna þjálfarastörfum. Þessi bakgrunnur gefur henni góða innsýn í þarfir og kröfur hlaupara og íþróttamanna, sem viðskiptavinir munu njóta góðs af.

Fyrri greinOlsson og Leal fóru aftur heim
Næsta greinFjölnir tók fyrsta leikinn