Fjögur verkefni fengu menningarstyrk

Menningarnefnd Ölfuss hefur úthlutað styrkjum úr Lista- og menningarsjóði Ölfuss þetta árið. Fjögur verkefni hlutu styrk.

Þetta er í níunda skipti sem styrkjum úthlutað er úr sjóðnum og voru að þessu sinni 275.000 krónur til úthlutunar.

Alls bárust fimm umsóknir, samanlagt að upphæð 1.168.000 krónur. Ákveðið var að styrkja fjögur verkefni en stærsti styrkurinn eða 150.000 krónur, fór til Leikfélags Ölfuss vegna sýningarinnar Makalaus sambúð sem nú er á fjölunum.

Þá var ákveðið að styrkja Félag eldri borgara um 60.000 krónur vegna ýmissa viðburða á afmælisári félagsins, en það heldur upp á 20 ára afmæli sitt árið 2014.

Róbert Karl Ingimundarson fékk 40.000 króna styrk vegna ljósmyndasýningar sem nú stendur yfir í Gallerí undir stiganum, en menningarnefnd fær leyfi til að nota myndir frá Róberti í kynningarefni fyrir sveitarfélagið. Að lokum fékk Kvenfélagið Bergþóra 25.000 króna styrk til að efna til jólatrésskemmtunar í desember.

Fyrri grein800Bar styrkir Soroptimistaklúbb Suðurlands
Næsta greinEinhugur og góður andi hjá glímumönnum