Fjögur sunnlensk lög í úrslitum

Sunnlendingar geta slegið eign sinni á a.m.k. fjögur af sjö laganna sem keppa í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins í kvöld.

Þar skal fyrst telja lagið Eldgos þar sem fulltrúi Suðurlands er sjálfur Eyjafjallajökull. Matti Matt og Erla Björg Káradóttir flytja lagið. Fyrir aftan þau situr Selfyssingurinn Bassi Ólafsson og lemur húðirnar af miklum krafti.

Lagið Ég lofa er flutt af Jógvan Hansen en hann er höfundur lagsins ásamt Skaftfellingnum Vigni Snæ Vigfússyni sem uppalinn er á Kirkjubæjarklaustri.

Lagið Ég trúi á betra líf er eftir Hallgrím Óskarsson í Lækjarhvammi í Ölfusi og það er Magni Ásgeirsson, söngvari hljómsveitarinnar Á móti sól og fyrrum Hvergerðingur, sem flytur lagið. Hallgrímur samdi lagið Open Your Heart sem Birgitta Haukdal flutti í Lettlandi árið 2003 og sömuleiðis lagið Undir regnbogann sem Ingó flutti í úrslitunum hér heima fyrir tveimur árum.

Að lokum er það lagið Aftur heim, eftir Sigurjón Brink en það er flutt af Hreimi Erni Heimissyni frá Hvolsvelli, Selfyssingnum Gunnari Ólasyni, Skaftfellingnum Vigni Snæ og tengdasyni Selfoss, Pálma Sigurhjartarsyni auk Matta Matt og Benedikts Brynleifssonar.