Fjögur hringtorg fyrir 200 milljónir

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða var lægstbjóðandi í nýtt hringtorg sem stendur til að leggja á mótum Suðurlandsvegar og Gaulverjabæjarvegar, við verslun Bónuss á Selfossi.

Það er fjórða hringtorgið sem fyrirtækið tekur að sér nú á skömmum tíma en áður hafði það lagt tvö hringtorg við Aratungu í Bláskógarbyggð auk þess sem það vinnur að lagningu hringtorgs við Minni-Borg í Grímsnesi. Heildarkostnaður við þessi fjögur hringtorg er um 200 milljónir króna en í sumum tilvikum er einnig um að ræða tengivegi.

Gert er ráð fyrir að hringtorginu við Bónus verði skilað í nóvember næstkomandi enda verður að hafa hraðar hendur þar sem það er á þjóðvegi 1.