Fjögur fyrirtæki fengu viðurkenningu frá Markaðsstofu Suðurlands

Fulltrúar verðlaunahafanna ásamt Dagnýju Huldu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands. Ljósmynd/Aðsend

Aðalfundur og árshátíð Markaðsstofu Suðurland var haldinn á Hótel Örk í Hveragerði í síðustu viku. Á árshátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir sprota ársins og framlag til ferðaþjónustu. Þar sem árshátíðin var ekki haldin í fyrra, þá voru veittar viðurkenningar bæði fyrir árin 2020 og 2021.

Sproti ársins 2020 var Zipline Iceland í Norður-Vík í Mýrdal. Fyrirtækið var stofnað árið 2017 af tveimur fjölskyldum og hundinum Pöndu en sameiginlegur áhugi á svifvængjaflugi og ævintýraþrá leiddu þau saman. Zipline teymið kom svo sannarlega með krafti inn í afþreyingarflóruna á Suðurlandi og býður upp á stórskemmtilega upplifun.

Eldhestar í Ölfusi fengu síðan viðurkenninguna fyrir framlag til ferðaþjónustu 2020. Eldhestar er rótgróið fyrirtæki sem hóf fyrst rekstur sem hestaleiga árið 1986. Síðan hefur starfsemin vaxið jafnt og þétt og árið 2002 var Eldhestar Hótel opnað með aukna áherslu á hestaferðir með tengingu við hótelið og veitingarekstur. Stefna Eldhesta hefur alltaf verið bjóða upp á hestaferðir í hæsta gæðaflokki þar sem góður hestakostur og hæft starfsfólk er í fyrirrúmi. Það skilar sér í betri upplifun gesta og sýnir það sig í því að Eldhestar voru í hópi 10% fyrirtækja sem fengu hæstu einkunn á Tripadvisor á heimsvísu fyrir stuttu.

Sproti ársins 2021 er Caves of Hella eða Hellarnir á Ægissíðu við Hellu. Hellarnir eru elstu manngerðu hellar á Íslandi og hefur fjölskyldan á Ægissíðu unnið að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellanna í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun Íslands. Í janúar 2020 var byrjað að bjóða upp á skipulagðar ferðir fyrir ferðamenn í hellana og þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hefur ásóknin verið mikil, ekki síst meðal Íslendinga.

Viðurkenning fyrir framlag til ferðaþjónustu 2021 kom síðan í hlut Skógasafns. Byggðasafnið í Skógum hefur gengið í gegnum margar breytingar frá því að sýningin var gerð aðgengileg fyrir almenning fyrsta desember 1949 í Skógaskóla. Safnið hefur staðist tímans tönn og vaxið ásmegin allt frá stofnun og til dagsins í dag. Það er fyrst og fremst verk eins frumkvöðuls og hugsjónamanns, Þórðar Tómassonar heitins safnstjóra. Skógasafn er brautryðjandi í menningartengdri ferðaþjónustu á Suðurlandi og hefur lagt mikið upp úr góðum opnunartíma sem styrkti á sínum tíma grundvöll ferðaþjónustunnar að verða heilsársatvinnugrein á svæðinu.

Fyrri greinKannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur…
Næsta greinHvert viljum við stefna?