Fjögurþúsundasti nemandinn brautskráður

Brautskráning frá Fjölbrautaskóla Suðurlands fór fram í dag og voru 109 nemendur brautskráðir, þar af 74 stúdentar. Yfir 4.000 nemendur hafa verið brautskráðir frá skólanum sem verður 30 ára í haust.

Magnús Borgar Friðriksson náði bestum árangri nýstúdentanna og hlaut hann fjölda viðurkenninga við útskriftina; í íslensku, þýsku, raungreinum, efnafræði og stærðfræði. Auk Magnúsar fengu þær Rakel Nathalie Kristinsdóttir og Aníta Kristjánsdóttir námsstyrk frá Hollvinasamtökum skólans. Öll voru þau með meðaleinkunn vel yfir 9.

Rakel og Aníta fengu báðar þrenn verðlaun fyrir árangur í einstökum greinum en fimmtán nemendur voru verðlaunaðir fyrir góðan árangur í námi og framlag til félagsmála.

Fjölbrautaskóli Suðurlands verður 30 ára í haust og þann 13. september, á afmælisdaginn, verður afmælishátíð í skólanum. Í dag var 4.000 nemandinn brautskráður frá skólanum. Brautskráðir nemendur FSu eru nú 4.038 talsins og þar af eru stúdentar skólans 2.286 talsins.