Fjarskiptakerfi sanna sig

Í aðgerðum björgunarsveita um helgina við Hrafntinnusker og Öræfajökul sannaðist enn og aftur hversu uppbygging fjarskiptakerfa á landinu er mikilvæg þegar kemur að öryggi ferðafólks.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

Í báðum tilvikunum gátu aðilarnir kallað eftir aðstoð með GSM símum en á undanförnum 3-4 árum hefur útbreiðsla GSM kerfisins til fjalla verið aukin til muna samhliða uppbyggingu Tetra kerfisins sem björgunaraðilar nota.

Aðstæður í fjarskiptum gerðu það t.d. að verkum að staðsetning þeirra sem í vandræðum voru var þekkt og því þurfti ekki að leita stórt svæði heldur var hægt að sækja að einum ákveðnum stað.