Fjármunir fást til tækjakaupa

Um 110 milljónum króna verður varið til kaupa á sérhæfðum tækjum til iðnáms við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en um tíma leit út fyrir að í nýja verknámshúsinu yrðu aðeins gömul tæki og fá, líkt og Sunnlenska hefur greint frá áður.

Fjárlaganefnd Alþingis beinir því til þingsins að veitt verði 66 milljónum króna af fjáraukalögum til tækjakaupanna og hafa fulltrúar sunnlenskra sveitarfélaga rætt það sín á milli að 44 milljónir komi úr sjóðum sveitarfélaganna í framlag til kaupanna á tækjunum.

Ósk um fjármunina var send fjárlaganefnd Alþingis bréflega í síðustu viku og á fundi nefndarinnar síðastliðinn miðvikudag var ákveðið að verða við beiðninni.

Í bréfinu kom fram umræddur vilji meðal sveitarstjórnarmanna án þess þó að hægt væri að veita formlegt loforð. Þó má ætla að meirihluti verði fyrir málinu meðal sveitarstjórna í ljósi þess hverjir sækja málið innan SASS. Málið á þó eftir að fá efnislega umfjöllun í meðförum þingsins en það hefur stuðning meirihluta nefndarinnar, og er ekki talið að það mæti neinni andstöðu. Á sínum tíma var pólitísk samstaða um byggingu verknámshússins Hamars og eftir því sem næst verður komist á hið sama við um fjárveitinguna sem um ræðir nú.

Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður segir ánægjulegt að þrýstingur á nefndina hafi skilað árangri. „Það var algjörlega rökrétt að taka þetta skref til að klára að fullu uppbyggingu aðstöðu verknámsins við skólann með þessum hætti, annað hefði verið kjánalegt, að láta húsið standa nærri autt í langan tíma,“ sagði Unnur Brá í samtali við Sunnlenska.

Ætlað er að byggingu Hamars, verknámshúss, verði að fullu lokið í desember, en hluti þess hefur verið tekinn í notkun nú þegar undir kennslu.

Ný tæki sem koma inn í húsið gagnast bæði við kennslu í greinum sem kenndar hafa verið við skólann áður, sem og nýja áfanga sem teknir verða upp samhliða stækkuninni. Ljóst þótti að án nýs búnaðar myndi stærstur hluti hins nýja húss, sem kostað hefur rúman hálfan milljarð, ekki nýtast nema að litlu leyti.