Fjármál einvígisins fá sess á Fischersetrinu

(F.v.) Aldís, Hilmar, Björn, Viggó og Guðmundur G við afhendingu gjafarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fischersetrinu á Selfossi barst góð gjöf fyrir páska þegar Hilmar og Björn Viggóssynir, Viggó Hilmarsson og Guðmundur G. Þórarinsson komu færandi hendi á setrið.

Þar var um að ræða innrammaða, myndskreytta grein á íslensku eftir Björn Viggósson um fjármálin tengd Einvígi aldarinnar – og úrdrátt úr henni á ensku. Síðar á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá einvígi Fischer og Spasskí í Laugardalshöllinni. Skáksamband Íslands hafði ekki mikið bolmagn til þess að halda utan um mótið en með sölu minjagripa tókst að lyfta Grettistaki.

Hilmar Viggósson var í stjórn Skáksambands Íslands og gjaldkeri þess við framkvæmd heimsmeistaraeinvígisins árið 1972. Við afhendingu gjafarinnar sagði hann að hingað til hafi ekki verið mikið fjallað um fjármál einvígisins.

„Þau voru mjög viðamikil. Við byrjuðum eiginlega með enga peninga í höndunum en þetta endaði þannig að einvígið var rekið með hagnaði að lokum, að mig minnir sextán milljónum króna á þeim tíma, sem er í raun ótrúlegur árangur. Þessi grein sem við erum að afhenda hér í dag birtist á sínum tíma í Morgunblaðinu og er mjög athyglisverð. Ég hvet sem flesta til að koma hingað og skoða þetta,“ sagði Hilmar áður en hann afhenti Aldísi Sigfúsdóttur gjafirnar.

Hilmar segir að hingað til hafi ekki verið mikið fjallað um fjármál einvígisins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Greinin er á íslensku en henni fylgdi innrammaður úrdráttur á ensku. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHænurnar á Skeiðunum voru með fuglaflensu
Næsta greinOpið hús á Reykjum á sumardaginn fyrsta