Lögregla og slökkvilið á Selfossi fjarlægðu leifar af flöskusprengju skammt frá skólalóð Sunnulækjarskóla í morgun.
Engin hætta var á ferðum en að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns, var um rusl að ræða, mögulega eitthvað sem sprengt hefði verið síðustu daga. „Það var ekki skoðað vandlega heldur bara fært í ruslið, svo ekki væri hætta af,“ sagði Oddur í samtali við sunnlenska.is.
Sprengjurnar sem sprungið hafa á Selfossi síðustu daga virðast innihalda ætandi efni sem geti verið skaðlegt berist það á húð eða í augu.
Í morgun var mikill viðbúnaður og götulokanir á gatnamótum Tryggvagötu og Engjavegar, eftir að tilkynnt var um torkennilegan hlut. Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra mættu með dróna og vélmenni á vettvang og var þar um að ræða heimatilbúna sprengju sem var eytt.
Lögreglan ítrekar að þeir sem telji sig finna órofnar plastflöskur sem bera þess merki um að í þeim sé torkennileg efni skuli ekki hreyfa við þeim og hafa beint samband við 1-1-2 og tilkynna um slíkt til lögreglu.