Fjárhagur í góðu jafnvægi

Gert er ráð fyrir um 30 milljón króna rekstrarafgangi af rekstri Skeiða- og Gnúpverjahrepps á næsta ári í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Áætlunin var samþykkt samhljóða á síðasta fundi sveitarstjórnar en þar var jafnframt lögð fram og samþykkt áætlun áranna 2014 til 2016. Heildartekjur næsta árs eru áætlaðar um 452,1 milljónir króna, en framlag úr jöfnunarsjóði verður mun lægra en verið hefur undanfarin ár.

Handbært fé frá rekstri er áætlað um 50,1 milljón króna og þá er áætlað eigið fé um 588,7 milljónum króna í árslok 2013.

Áform eru um að fjárfesta fyrir um 33,3 milljónir króna í sveitarfélaginu á næsta ári. Þannig stendur til að koma upp nýju gámasvæði neðan við Árnes, vinna að vegagerð að búgarðabyggð neðan Árness og rafvæða tjaldsvæða í Brautarholti og við Árnes. Þá verður viðhaldi á félagsheimilinu í Árnesi og Þjórsárskóla gert skil. Sveitarstjórn gerir ekki ráð fyrir neinum lántökum á komandi ári.

Fyrri greinLeitað að Matthíasi í Hveragerði, Laugarási, á Laugarvatni og Flúðum
Næsta greinFormenn komu færandi hendi