Fjárhagsáætlun Árborgar sýnir áframhaldandi bata í rekstri

Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2026 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í gær. Útsvarsprósentan helst óbreytt í 14,97% og fasteignagjöld verða lækkuð.

Í fjárhagsáætlun 2026 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B hluta, verði jákvæð sem nemur 164,5 milljónum króna og að EBITDA verði jákvæð um 2.875 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað 2.408 milljónir króna í samstæðu sveitarfélagsins, framlegðarhlutfallið verði 12,7 og skuldaviðmiðið í 118,8% sem er vel undir 150% viðmiði Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

„Þetta er jákvæð niðurstaða sem fer fram úr björtustu vonum þegar horft er þrjú ár til baka. Áætlunin sýnir áframhaldandi bata í rekstri og ávinning til íbúa. Hún endurspeglar árangur síðustu ára og hvernig ábyrgur rekstur getur skapað svigrúm til lækkunar gjalda og álaga. Góð skref að sveitarfélagið geti á næsta ári lækkað fasteignagjöld, hækkað frístundastyrk um 25% og fjárfest áfram í framkvæmdum mikilvægra innviða samfélagsins,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri.

Rekstrarniðurstaða Árborgar fyrir A- og B-hluta 2023-2029.

Fasteignagjöld lækka á íbúa og fyrirtæki
Í fjárhagsáætlun 2026 er gert ráð fyrir að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki úr
0,48% í 0,44% af fasteignamati og að vatns- og fráveitugjald lækki úr 0,102% í 0,0806%
fyrir eignir í A-flokki en B-flokkur haldist óbreyttur. Fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði í
C-flokki lækkar úr 1,65% í 1,63% af fasteignamati. Vatnsgjald af atvinnuhúsnæði lækkar
úr 0,172% í 0,162% og fráveitugjald af atvinnuhúsnæði lækkar einnig úr 0,18% í 0,17%.

Lóðarleiga helst óbreytt, gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka í flestum flokkum sérbýla
en hækka vegna fjölbýlishúsa. Góður árangur íbúa við flokkun skilar sér í tekjum frá Úrvinnslusjóði og að sögn Braga hjálpar það til við að hægt sé að lækka flesta flokka milli ára.

Fasteignamat hefur hækkað innan Árborgar á undanförnum árum og á yfirstandandi ári
nemur hækkunin um 10% að meðaltali. Það er þó mismunandi milli byggðarkjarna og
hverfa en mesta hækkunin í ár er á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Frístundastyrkur hækkar um 25%
Í greinargerð með fjárhagsáætluninni má sjá að leikskólaplássum mun fjölga áfram haustið 2026 og námsgjald í leikskólum stendur í stað milli ára en skráningardagar og gjald eftir klukkan 14 á föstudögum mun hækka. Á þessu ári var hækkað framlag til foreldra fyrir þjónustu dagforeldra og hækkar það í samræmi við verðlag.

Félagsmiðstöðin Zelsíuz verður efld með nýju útibúi í Stekkjaskóla og frístundastyrkur barna 4 – 17 ára hækkar um 25% milli ára auk þess sem sett verður aukið
framlag í samninga við íþrótta- og frístundafélög með það að markmiði að efla starf
félaganna fyrir börn og ungmenni. Áfram verður unnið að þjónustu við aldraða í gegnum verkefnið “gott að eldast” og sett verður fjármagn til að bæta aðstöðu í Grænumörk á Selfossi.

Aukinn opnunartími verður í sundlaugum Árborgar þar sem opnunartími lengist og bætt verður við tveimur opnunardögum í sundlaug Stokkseyrar yfir vetrartímann. Á Stokkseyri verður opið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 16:30 til kl. 20:00 og óbreytt á laugardögum. Sundhöll Selfoss heldur sama opnunartíma og tekur gildi 1. desember nk. þegar opnunartími lengist til kl. 22:00 frá mánudegi til fimmtudags.

Umfangsmiklar framkvæmdir á næstu árum
Áætlað er að sveitarfélagið Árborg framkvæmdi fyrir rúmlega þrjá milljarða á næsta ári en meðal helstu framkvæmda eru íþróttahús við Stekkjaskóla, viðbyggingar við leikskólana Jötunheima og Árbæ og kennslusundlaug og saunaaðstaða við Sundhöll Selfoss. Þá verða göngu og hjólastíga með tengingu við Fjörustíg við ströndina kláruð og unnið að framkvæmdum við Barnaskólann á Eyrarbakka.

Lokaáfangi skólphreinsistöðvarinnar á Selfossi verður kláraður á næsta ári og unnið að styrkingu dreifikerfis vatnsveitu ásamt frekari orkuöflun Selfossveitna. Tröppurnar við ráðhúsið á Selfossi verða endurnýjaðar, nýtt skátaheimili tekið í notkun og unnið að hönnun á tjaldsvæði og Sigtúnsgarðinum. Þá verða framlög hækkuð til viðhalds stofnana, gatna og göngustíga.

Heildarskuldir og skuldaviðmið Sveitarfélagsins Árborgar.

Nánari útskýring á fasteignagjöldum, útsvari og gjaldskrárhækkunum
Útsvar fyrir árið 2026 verður óbreytt í 14,97 prósent. Almennar gjaldskrárhækkanir verða um 3,2 prósent sem er í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar. Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, fráveitu- og vatnsgjalda og sorphirðugjalda.

Eftirfarandi breytingar taka gildi við álagningu árið 2026:

  • Fasteignaskattur á íbúðahúsnæði (A) lækkar úr 0,48% í 0,44%.
  • Vatnsgjald á íbúðahúsnæði (A) lækkar úr 0,102% í 0,0806%.
  • Fráveitugjald á íbúðahúsnæði (A) lækkar úr 0,102% í 0,0806%.
  • Fasteignaskattur á opinberar byggingar (B) helst óbreyttur.
  • Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði (C) lækkar úr 1,65% í 1,63%.
  • Vatnsgjald á atvinnuhúsnæði (B og C) lækkar úr 0,172% í 0,162%.
  • Fráveitugjald á atvinnuhúsnæði (B og C) lækkar úr 0,18% í 0,17%.
  • Lóðarleiga helst óbreytt 1%.

Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka í öllum flokkum hjá sérbýlum en hækka fyrir fjölbýlishús.

Í fréttatilkynningu vegna fjárhagsáætlunarinnar kemur fram að þessar breytingar innan fasteignagjaldanna skilo um 330 milljónum króna í auknar ráðstöfunartekjur til íbúa og fyrirtækja í Árborg.

Fyrri greinÓmetanlegt þegar forsvarsfólk íþróttahéraða hittist
Næsta greinFjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur