Fjárfest í þremur nýjum félögum

Eignarhaldsfélag Suðurlands hefur fjárfest í þremur nýjum félögum það sem af er þessu ári og selt hlutabréf sín í einu félagi.

Að sögn fram­kvæmda­stjóra félagsins, Sædísar Ívu Elías­dóttur, hefur félagið svigrúm til að vinna út frá 90 milljóna króna eiginfjárstöðu sem gefur ekki færi á mörgum fjárfestingum á hverju ári.

Engar umsóknir eru á borði félagsins núna en Sædís Íva sagði að vanalega væri talsvert sótt í þátt­töku félagsins en fjárfestingastefna þess er skýr. ,,Menn vita vel af félaginu og við erum ekki í vandræðum með umsóknir,” sagði Sædís Íva.

Það sem af er ári hefur félagið fjárfest í Sæbýli ehf. Eignarhaldsfélaginu Flóanum ehf. og nú síðast í Plastiðjunni ehf. Félagið á 10% hlut í Sæbýli og 25% í Eignarhaldsfélaginu Flóanum sem stóð fyrir endurreisn á bjórverksmiðjunni í Ölvisholti. Nú síðast keypti félagið um 20% í Plastiðjunni á Selfossi.

Félagið seldi 14% hlut sinn í Tölvu og rafeindaþjónustu Suðurlands ehf. (TRS ehf.) fyrr ár árinu. Það voru aðrir hluthafar sem keyptu en að sögn Sædísar Ívu er í sumum til­vikum kveð­ið á um forkaupsrétt annara hlut­hafa. Þannig leystu aðrir hluthafar Eldhesta ehf. í Ölfusi til sín bréf Eignarhaldsfélagsins á síðasta ári.