Fjallkonan fær frábærar viðtökur

Í síðustu viku opnaði sælkeraverslunin Fjallkonan í Gamla bankanum við Austurveg á Selfossi. Verslunin er með mikið úrval af matvöru beint frá býli auk þess að bjóða upp á innfluttar sælkeravörur.

„Við búum í matarkistu hér á Suðurlandi. Í staðinn fyrir að grænmetið sé sent til Reykjavíkur, pakkað inn þar og sent aftur í verslanir á Suðurlandi, þá kemur bóndinn með grænmetið beint til okkar. Þetta skilar sér í ferskari matvöru,“ segir Sigrún Óskarsdóttir en hún rekur versluna ásamt mágkonu sinni Elínu Unu Jónsdóttur.

Nú er uppskerutími grænmetis í hámarki og því mikið magn af nýuppteknu og fersku grænmeti á boðstólum í verslunni. Að auki er Fjallkonan með sína eigin framleiðslu, svokallaða Fjallkonulínu.

„Við höfum verið að búa til rabbabara- og appelsínusultu sem kallast Rabbapp. Einnig höfum eigin verið að búa til pestó, rauðlaukssælu og ýmislegt fleira. Við erum svo að fikra okkur áfram með að krydda lífrænar ólífur og það bætist sífellt eittthvað nýtt í Fjallkonulínuna,“ segir Sigrún. Hún bætir því við að Fjallkonan sé fyrst og fremst verslun en þar er einnig hægt að setjast niður og fá sér gæðakaffi frá Kaffitári.

Sigrún segir að verslunin hafi fengið frábærar viðtökur síðan hún opnaði. „Þetta er búið að vera algjört ævintýri og það er búið að vera brjálað gera síðan við opnuðum. Við þurftum að bæta við okkur mannskap. Vinkonur okkar sem voru í sumarfríi voru settar á kassann,“ segir Sigrún og hlær. Að sögn Sigrúnar eru það bæði ferðamenn og heimamenn sem leggja leið sína í versluna og fastakúnnarnir eru þegar orðnir margir.

„Við erum þakklát fyrir hvað kúnnarnir eru glaðir og ánægðir og það gefur okkur mikið,“ segir Sigrún að lokum.

Fyrri greinLögreglumönnum á Selfossi fækkar
Næsta greinStokkseyri og KFR töpuðu