Fiskvængirnir slá í gegn

Bjarki Þór Sólmundarson og Elvar Örn Sigdórsson með fiskvængina girnilegu í Fiskverslun Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fiskverslun Suðurlands býður upp á heitan mat í hádeginu og ein af nýungunum þar eru svokallaðir „fiskvængir“.

„Þetta er í raun klumba á beini sem er djúpsteikt og minnir helst á hot wings eða buffalo vængi og ákváðum við því að kalla föstudaga „vængjadaga“ hjá okkur,“ segir Bjarki Þór Sólmundarson, hjá Fiskverslun Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.

Hann segir að klumbran sé einstaklega góður vöðvi sem er þéttur, ferskur og bragðmikill, ekki ósvipaður kinnum.

„Við djúpstekjum klumbuna upp úr deigi og svo veltum við fisknum upp úr heimagerðri BBQ sósu sem er krydduð með söltuðum sítrónum. Við prufukeyrðum þetta í fyrsta skipti fyrir tveimur vikum og þetta sló í gegn þannig að við ætlum að vera með vængja daga á föstudögum sem fastan lið í heita matnum,“ segir Bjarki og bætir við að verslunin leggi mikla áherslu á samstarf við nágranna sína í öllum geirum.

„Djúpsteikingardeigið gerum við úr bjór sem heitir Baldur frá Brugghúsinu Ölvisholti og allt þetta verkefni er unnið í samvinnu við Braggann Studio í Birtingaholti í Hrunamannahreppi. Bragginn rekur ráðgjafaþjónustu og vinnur með matvælafyrirtækjum á svæðinu að frumkvöðla starfsemi og með þeim erum við að leita leiða til að gera rétti úr þeim parti fisksins sem er yfirleitt ekki nýttur til manneldis á Íslandi.“

Bjarki segir að í dag sé aðeins um 40% af fiski nýttur til manneldis en stærstur hlutinn fari í dýrafóður eða í skreið sem seld er til Ítalíu og Mið-Afríku.

„Okkur finnst mjög spennandi hvernig aðrar þjóðir sjá þarna verðmæti sem við höfum ekki gert og okkur langar að sjá hvort ekki sé hægt að gera rétti úr þessum hlutum fisksins sem myndu ganga vel í almenning. Fiskvængirnir eru fyrsta skrefið en við munum þróa fleiri rétti á næstunni í samvinnu við Braggann,“ segir Bjarki að lokum.

Klumbran er krydduð með söltuðum sítrónum. Ljósmynd/Aðsend
Fiskvængir með girnilegu meðlæti. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLeikskólar Árborgar lokaðir á milli jóla og nýárs
Næsta greinBlásið til jólaskreytingakeppni í Hveragerði