Fisk­eldi í Þor­láks­höfn þarf að fara í um­hverf­is­mat

Þorlákshöfn. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Skipu­lags­stofn­un hef­ur ákveðið að allt að 5.000 tonna fisk­eldi Tálkna ehf. við Þor­láks­höfn skuli háð mati á um­hverf­isáhrif­um. Hægt er að kæra ákvörðun­ina til úr­sk­urðar­nefnd­ar.

Morgunblaðið greinir frá þessu.

Fram kem­ur í ákvörðun Skipu­lags­stofn­un­ar að Tálkni fyr­ir­hugi að reisa fisk­eld­is­stöð á lóð suðvest­an þétt­býl­is­ins í Þor­láks­höfn á milli starf­andi seiða- og fisk­eld­is­stöðva. Svæðið sé að stærst­um hluta í gam­alli fjög­urra til sjö metra djúpri námu, sem sé lítt frá­geng­in en að nokkru sjálf­gró­in. Stöðin sé hönnuð til að ala lax­fisk (bleikju, lax og sjó­birt­ing).

Skipu­lags­stofn­un seg­ist telja að jafn­mikið eldi og fyr­ir­hugað sé kalli á nán­ara mat og grein­ingu þegar horft sé til staðsetn­ing­ar og álagsþols nátt­úr­unn­ar, einkum strandsvæða, m.a. vegna óvissu um magn nær­ing­ar­efna og úr­gangs sem muni koma frá starf­sem­inni.

Frétt mbl.is

Fyrri greinÞórsarar töpuðu í Vesturbænum
Næsta greinHaukur fór á kostum í bikarsigri Selfoss