Fischersetrið opnað formlega

Fischersetrið á Selfossi var opnað formlega í dag með opnunarhátíð á 2. hæð í Gamla bankanum við Austurveg. Setrið er í senn safn til minningar um Bobby Fischer og félagsheimili Skákfélags Selfoss og nágrennis.

Magnús Matthíasson, einn stjórnarmanna Fischersetursins, sagði í samtali við sunnlenska.is í dag að sér væri nokkuð létt að setrið væri komið á laggirnar en undirbúningur að því hefur staðið í rétt ár.

Í safninu er að finna fjölmarga muni tengda skákferli Fischer og einvígi hans við Boris Spassky á Íslandi árið 1972 og að sögn Magnúsar eru þeir bæði í einkaeigu og eign setursins. „Þeir eru víða komnir að þetta eru mest einkasafnarar sem hafa viðað að sér þessum munum í gegnum árin og annað hvort lánað okkur eða gefið munina,“ segir Magnús en setrinu bárust líka góðar gjafir á opnunarhátíðinni.

„Friðrik Ólafsson gaf okkur í dag skorkort úr skák hans og Fischer sem er stórmerkilegt upprunalegt skjal. Þá fengum við merki heimsmeistaraeinvígisins 1972 sem er stórkostleg gjöf og nýtist okkur vel. Þetta tvennt eru magnaðar gjafir. Síðan er ég með ýmis umslög með gjöfum sem á enn eftir að skoða,“ bætir Magnús við.

Eftirlíking af skákborðinu úr einvígi aldarinnar er í öndvegi í salnum en þar eru líka smærri og stórmerkilegir hlutir eins og flísin sem átti að hafa verið í stól Spassky og gert honum óleik í rimmunni við Fischer. „Sovéska leyniþjónustan fékk sérfræðinga til að rannsaka stól Spassky en þeir héldu að Bandaríkjamennirnir hefðu sett einhvern rafeindabúnað í stólinn. Við þessa rannsókn fannst þessi flís og hún er hérna í sýningarskáp hjá okkur.“

Margar snjallar ræður voru fluttar á opnunarhátíðinni í dag. Ráðherrarnir Illugi Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson fluttu ávörp, Friðrik Ólafsson stórmeistari sagði frá vini sínum Fischer og það sama gerði Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrum forseti Skáksambands Íslands.

Þá skrifuðu Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs og Aldís Sigfúsdóttir, forstöðukona setursins undir samning en bæjarráð Árborgar samþykkti í morgun styrk til setursins sem eyrnamerktur er skákkennslu fyrir grunnskólabörn.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, steig einnig á stokk en hann mælti á sínum tíma fyrir þingsályktunartillögu sem flutt var af tíu öðrum þingmönnum um skáksetur helgað afrekum Fischer og Friðriks Ólafssonar. Guðni sló á létta strengi eins og svo oft áður og bætti því við í ræðu sinni í dag að ekki yrði tímabært að minnast Friðriks fyrr en hann væri fallinn frá.

„Nú verður opið hérna milli 13 og 16 alla daga vikunnar og við höfum fengið nokkra höfðingja til að standa vaktina hérna til 15. september. Við sjáum til eftir það. Við vitum að það er eftirspurn eftir þessu, ég er sannfærður um að ferðamenn munu stoppa hérna. Erlendir ferðamenn fara margir að leiði Fischer í Laugardælum og þeir munu eflaust vilja stoppa hérna líka,“ sagði Magnús að lokum.

Fyrri greinFjölnir skellti Selfoss í bragðdaufum leik
Næsta greinJafntefli gegn toppliðinu