Fischer-stofnunin sett á fót á Selfossi

Stofnun Fischer-stofunnar var kynnt í gær á Selfossi. Fischer-stofan verður til húsa í gamla Landsbankanum, Austurvegi 21. Þar mun Skákfélag Selfoss og nágrennis einnig hafa aðsetur frá og með næsta hausti.

Þetta var kynnt á fundi í hinu nýja húsnæði að viðstöddu fjölmenni. Magnús Matthíasson, formaður SSON, hélt ræðu og fór yfir hugmyndir varðandi nýtingu húsnæðisins. Einnig héldu Guðmundur G. Þórarinsson, forseti SÍ á einvígisárunum og Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, ræður. Báðir lýstu þeir yfir mikilli ánægju með framtakið.

Að öðrum ólöstuðum á Gunnar Finnlaugsson mestan heiður af Fischer-stofunni. Gunnar stóð fyrir stofnun Fischer Selfoss Foundation, sem leggur til veglegt stofnfé í reksturinn. Gunnar mun einnig standa fyrir innflutningi á skákmunum, sem eru alls 300 kg og verða lögð inn í safnið.
Á fundinum í gær voru m.a. bæjarstjórnarmenn í Árborg og Flóahreppi, núverandi og fyrrverandi forystumenn skákhreyfingarinnar, fyrrverandi þingmenn og eigendur hússins, Sigfús Kristinsson og fjölskylda en þau leggja til húsnæðið gegn afar hógværrri leigu en húsnæðið er leigulaust til skákfélagsins til áramóta, þ.e. þann tíma sem tekur að koma safninu upp.

Fyrri greinÞyrlan sótti slasaða konu
Næsta greinNýjar sunnlenskar rófur komnar í verslanir