„Finnst rosalega gaman að fá fólk til að hlæja“

Frá afmæli Auðbjargar þar sem hún tróð upp sem uppistandari í fyrsta skipti. Ljósmynd/Aðsend

Laugardaginn 24. maí næstkomandi verður uppistand tveggja miðaldra kvenna á Sviðinu á Selfossi. Uppistandið ber heitið Afhverju fórum við ekki bara á gönguskíði?

Það eru þær Auðbjörg Ólafsdóttir og Sóley Kristjánsdóttir sem standa að sýningunni sem sló algjörlega í gegn fyrir troðfullu húsi þegar hún var frumflutt í Tjarnarbíói í mars síðastliðnum. Þess má geta að sú fyrrnefnda er frá Geirakoti í Sandvíkurhreppi hinum forna.

„Ég held að það hafi alltaf blundað í mér að vera uppistandari. Ég er mikill sögumaður og finnst rosalega gaman að fá fólk til að hlæja. Ég ætlaði mér lengi að vera rithöfundur þegar ég var yngri en ég held að þetta form henti mér bara miklu betur,“ segir Auðbjörg í samtali við sunnlenska.is.

Sá tækifæri í framafríinu
Þrátt fyrir mikið annríki síðustu ár þá slokknaði draumur Auðbjargar aldrei. Síðastliðið haust sá hún svo loksins tækifæri til að láta drauminn verða að veruleika.

„Svo auðvitað gerist bara lífið og ég hef verið upptekinn við barnauppeldi, en ég á fjóra stráka og hef einnig verið í krefjandi störfum síðustu ár þannig að það var aldrei tími til að láta þennan draum rætast. Síðasta haust þá tók ég mér framafrí og hætti í vinnunni minni án þess að vera með neitt plan hvað ég myndi gera næst og þá kom þetta til mín og ég ákvað að láta slag standa.“

Varð hitta þessa hugrökku konu
Í 45 ára afmælinu sínu ákvað Auðbjörg svo að láta drauminn rætast. „Ég ákvað semsagt að ríða á vaðið og debútera sem uppistandari í 45 ára afmælinu mínu sem ég hélt í janúar síðastliðnum. Það vægast sagt sló í gegn og var ótrúlega skemmtilegt.“

„Í afmælinu mínu var svo vinkona mín sem sagði mér að vinkona hennar, Sóley, hafi gert nákvæmlega það sama í sínu afmæli nokkrum mánuðum fyrr og ég hugsaði strax, Vá það er til önnur jafn hugrökk kona og ég! Ég varð að hitta hana og úr varð að við tókum kaffi saman, hefðum getað ákveðið að fara saman á gönguskíði en gerðum þetta í staðinn.“

Ógleymanlegt kvöld
Sem fyrr segir sló uppistand Auðbjargar og Sóleyjar algjörlega í gegn. „Þetta var algjörlega geggjað og ég mun aldrei gleyma þessu kvöldi svo lengi sem ég lifi. Troðfullt hús, það seldist upp og þurfti meira að segja að bæta við stólum. Ég var í algjöru flæði og fann að þetta væri eitthvað sem mig langar til að gera meira af.“

Auðbjörg segir að tilfinningin eftir fyrsta uppistandið hafi verið ótrúleg. „Ég gleymdi stað og stund, fór eiginlega úr líkamanum og var í fullkomnu flæði. Það sama var upp á teningnum þegar ég og Sóley vorum saman með sýningu, ég fann svo sterkt fyrir því að ég þyrfti að gera meira af þessu.“

Auðbjörg og Sóley eftir gífurlega vel heppnað uppistand í Tjarnarbíói. Ljósmynd/Aðsend

Pabba finnst þetta skrítið
Fjölskylda og vinir Auðbjargar voru ekki hissa á því að hún skyldi vera með uppistand. „Ég held að það hafi í raun ekki komið neinum á óvart, ég hef verið laumuuppistandari í öllum partýum og matarboðum undanfarin ár. Ég held reyndar að pabba þyki þetta svolítið skrítið en allir aðrir virðast sjá þetta sem lógískt næsta skref í mínu lífi,“ segir Auðbjörg en hún er sjálfstætt starfandi ráðgjafi á sviði samskipta, fjárfestatengsla og mannauðsmála, auk þess að vera stjórnendaráðgjafi og markþjálfi.

Auðbjörg sér fram á að gera meira af þessu. „Það er svo mikið af sögum sem þarf að segja. Ég held að flestir geti tengt við grínið okkar Sóleyjar, hvernig það er að vera í hringiðu hversdagsleikans þar sem allt getur gerst og það eina í stöðunni er bara að gera grín af því. Alheimurinn er alltaf að tala við okkur og senda okkur verkefni og það er svo ótrúlega fyndið.“

„Ég er ótrúlega spennt að koma á Selfoss, minn heimabæ og vonast eftir að sjá sem flesta, ég lofa að þetta verður skemmtilegt kvöld og get ekki beðið,“ segir Auðbjörg að lokum.

Facebook-viðburður fyrir uppistandið.

Fyrri greinKammerkór Reykjavíkur í Sólheimakirkju
Næsta greinFjölmenni á fjölmenningarhátíð