Fimmvörðuháls: Margir göngumenn þurftu aðstoð

Björgunarsveitarmenn þurftu að aðstoða marga göngumenn sem voru á leið niður af Fimmvörðuhálsi í gærkvöldi og í nótt. Flestir þeirra höfðu ætlað sér um of og réðu ekki við þessa löngu göngu. Aðrir höfðu lent í minniháttar meiðslum s.s. að snúa sig eða togna. Björgunarsveitarmenn eru komnir á vakt við gosstöðvarnar á hálsinum en vakt var þar fram til kl. 02 í nótt.

Einhver brögð voru að því í gær að fólk ætlaði að leggja í göngu á Fimmvörðuháls illa búið. Þeim sem svo var ástatt um var snúið við. Undir kvöld snerist vindur í norðanátt þannig að gosefnum rigndi yfir gönguleiðina og var henni því lokað.

Tekin verður ákvörðun með morgninum hvort gönguleiðin frá Skógum verður opnuð í dag. Nú er bjart veður á Fimmvörðuhálsi en verulegt frost og reikna má með mikilli vindkælingu ef fer að hreyfa vind.

Fyrri greinThe Assassin of a Beautiful Brunette valin hljómsveit fólksins
Næsta greinReyktjón í bílskúrsbruna á Selfossi