Fimmvörðuháls: Búið að opna hjá Skógum

Ákveðið hefur verið að opna leiðina frá Skógum á Fimmvörðuháls fyrir göngufólki. Það er áréttað að fólk þarf að vera ákaflega vel búið til slíkra gönguferða og vel nestað.

Þá þarf fólk einnig að ráða við slíka göngu en hún er samtals um 30 kílómetrar og hækkunin er yfir 1100 metrar.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli: Norðaustan og norðan 8-13 m/s og yfirleitt léttskýjað, en búast má við stífum vindhviðum á svæðinu (allt að 13-18 m/s). Frost 6 til 14 stig. Bætir í vind seint á sunnudag, 10-15 m/s þá um kvöldið og hviður um og yfir 20 m/s.

Eftirfarandi ábendingar eru fengnar af vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar og eiga vel við um gönguferðir á Fimmvörðuháls:

  • Fylgist með veðurspá og farið eftir henni.
  • Gerið ferðaáætlun og skiljið hana eftir hjá aðstandendum.
  • Kynnið ykkur vel það svæði sem ferðast á um.
  • Góður fatnaður er að sjálfsögðu algert lykilatriði. Best er að klæðast nokkrum lögum af fatnaði sem verður að anda og ysta lagið þarf að vera vatnshelt.
  • Takið með lágmarks skyndihjálparbúnað og orkuríkan mat.
  • Góður fjarskiptabúnaður er mikilvægt öryggistæki og kunnátta á hann verður að vera til staðar. VHF talstöð eða NMT sími geta skipt sköpum ef eitthvað ber útaf og til þess að geta látið vita um breytta áætlun.
  • GPS staðsetningartæki og áttavita ættu allir að hafa meðferðis. Kunnátta til að nota slík tæki þarf auðvitað að vera til staðar.
  • Svefnpoki, einangrunardýna og vatnsheldur utanyfirpoki eða lítið tjald geta skilið á milli lífs og dauða ef til þess kemur að ferðalangur þarf að liggja utandyra af einhverjum orsökum.
  • Betra er að snúa við í tíma heldur en að koma sér í ógöngur.
Fyrri greinReyktjón í bílskúrsbruna á Selfossi
Næsta greinFimmvörðuháls: Snúið við á gallabuxum og leðurjakka