Fimmtugasta útkall Eyvindar á árinu

Mynd úr safni. Ljósmynd/Eyvindur

Björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út kl. 13:48 í dag vegna vélsleðamanns sem hafði ekið fram af klettabrún, fallið 3-4 metra og hlotið opið beinbrot á handlegg.

Meðal annars var Björgunarfélagið Eyvindur í Hrunamannahreppi kallað út og lætur nærri að þetta hafi verið fimmtugasta útkall Eyvindar á árinu. Um leið var þetta sautjánda útkall ársins hjá vettvangshjálparliði Eyvindar. Vettvangshjálparliðið var sett á fót árið 2011 en það skipa félagar í Björgunarfélaginu sem hafa undirgengist bráðaliðanámskeið og er hlutverk þeirra að bregðast við ef lögregla eða sjúkraflutningamenn HSu óska eftir aðstoð í alvarlegri slysum og eða veikindum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út og var hún fyrst á vettvang en þyrlan lenti á slysstað klukkan 14:32 eftir 24 mínútna flug frá Reykjavík. Maðurinn var fluttur um borð í þyrluna og búið um meiðsli hans. Var farið að nýju í loftið kl. 14:57 og lent við Landspítalann í Fossvogi kl. 15:07.

Fyrri grein„Býst við að hálf Hella mæti“
Næsta greinNaglahlaup á Hvolsvelli á gamlársdag