Fimmtíu ár frá strandi Wislok

Í dag eru fimmtíu ár liðin frá því pólski togarinn Wislok GDY 186 strandaði á rifi fyrir utan Krosssand í Landeyjum. Tuttugu og átta manns björguðust frá borði en einn lést.

Strandið er rifjað upp á Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli þar sem sjá má myndir af strandstað.

Skipverjar á Guðmundi góða RE sáu skiparakettum skotið á loft rétt fyrir kl. 6 að morgni þann 27. febrúar 1964 og skömmu síðar fékk Vestmannaeyjaradíó neyðarkall frá skipinu. Þeim boðum var komið til Slysavarnarfélags Íslands. Það kallaði út Björgunarsveitina Dagrenningu á Hvolsvelli og voru björgunarsveitarmenn komnir niður að Bakka um sjö leitið og niður í fjöru um kl. átta, en erfitt færi var niður í fjöruna.

Er þangað var komið voru nítján manns komnir að landi í bátum og hafði einn látist er bátunum hvolfdi. Níu manns voru enn um borð og tókst björgunarmönnum að skjóta línu til þeirra úr landi og voru þeir dregnir í land í björgunarstól.

Einn skipverjanna, Antoniuk Rysgard, hafði gengið yfir sanda og aurbleytu, líkega 4-5 kílómetra leið að bænum Bakka þar sem hann leitaði hjálpar hjá Jóni Einarssyni og Kristínu Sigurjónsdóttur og foreldrum Jóns, Einari Jónssyni og Kristbjörgu Guðmundsdóttur.

Skipbrotsmennirnir voru fluttir í Hvolinn á Hvolsvelli þar sem hlynnt var að þeim. Konur á staðnum komu með þurr föt að heiman og Kaupfélagið gaf skó og fleira. Einn var fluttur slasaður með sjúkrabíl til Reykjavíkur ásamt líki hins 33 ára gamla Bernard Sildatk sem drukknaði er björgunarbát hvolfdi.

Wislok sökk fimm vikum síðar
Skipið virtist lítið skemmt og var unnið að því í nokkrar vikur að ná því aftur út á sjó. Það náðist að draga það á flot laust eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 6. apríl en skipið sökk svo á mánudagsmorgun þar sem það var statt, tvær mílur frá landi. Þá voru tveir menn um borð og náðu þeir naumlega að bjarga sér með því að stökkva frá borði en skipið sökk á aðeins fjórum mínútum. Töldu menn að dráttarvírinn hafi festst í botni í drættinum og skipið annað hvort verið dregið í kaf eða aldan fyllt það.

(Heimildir, timarit.is, Morgunblaðið 28. febrúar 1964 og 7. apríl 1964.)

Fyrri greinGrímuklæddir sundmenn stálu lyklum að geymsluhólfum
Næsta grein„Akkúrat eins og derbyleikir eiga að vera“