Fimmtán félagar heiðraðir

Skátafélagið Fossbúar á Selfossi fagnaði 70 ára afmæli fyrir skömmu en félagið var stofnað 28. júlí 1944. Af því tilefni var slegið upp afmælisveislu á Landsmóti skáta í sumar.

Fossbúar vildu einnig gefa bæjarbúum sem ekki voru á landsmótinu kost á því að fagna með sér þessum áfanga og því var einnig haldin afmælisveisla í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi í nóvember og þangað mættu margir.

„Afmælisveislan var tvíþætt,“ segir Inga Úlfsdóttir, félagsforingi, í samtali við Skátamál. „Fyrst var skátaskemmtun þar sem sungnir voru skátasöngvar, skátarnir í félaginu fluttu heimatilbúin skemmtiatriði, viðurkenningar voru veittar og félaginu færðar góðar gjafir. Seinni hlutinn var svo kaffiboð þar sem öllum viðstöddum var boðið að þiggja kaffi og kökur. Við erum afskaplega ánægð með daginn,“ segir Inga, „það komu um 300 gestir og allir voru svo glaðir og ánægðir og við finnum svo mikinn meðbyr með félaginu hvert sem við komum.“

Á skátaskemmtuninni voru stofnfélagar Fossbúa heiðraðir með Skátakveðjunni úr gulli auk þess sem þeir voru gerðir að heiðursfélögum Fossbúa. Þetta voru þau Leifur Eysteinsson, Gunnar Gunnarsson og Friðrik Friðriksson, stofnfélagar Fossbúa og Þorbjörg Sigurðardóttir og Gunnhildur Þórmundsdóttir, stofnfélagar Selstúlkna, sem seinna sameinuðust Fossbúum.

Auk þess var Guðni Andreasen, bakari og velgjörðarmaður félagsins, gerður að heiðursfélaga ásamt níu fyrrverandi félagsforingjum í Fossbúum. Það voru þau Valdimar Valdimarsson, Margrét Sigurðsson, Ágústa Ólsen, Elsa Sigurðardóttir, Halldór Ingi Guðmundsson, Elín Esther Magnúsdóttir, Karen Öder Magnúsdóttir, Ármann Ingi Sigurðsson og Auður Lilja Arnþórsdóttir.