Fimm verktakar áhugasamir um Ölfusárbrú

Ný Ölfusárbrú. Mynd/Efla

Fimm verktakafyrirtæki vilja taka þátt í samkeppnisútboði Vegagerðarinnar vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá. Um er að ræða þrjá erlenda verktaka og einn íslenskan og eitt samvinnuverkefni íslensks og erlends verktaka.

Þetta er upphaf útboðsferlisins og í kjölfarið fer fram hæfismat og þeim sem metnir eru hæfir verður boðin þátttaka. Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að vonast er til að samningar náist á þessu ári.

Eftirtalin fyrirtæki sóttu um þátttöku í útboðinu: Hochtief Infrastructure GmbH frá Þýskalandi, IKI Infrastructure Systems Co. frá Japan, Puentes y Calzada Infraestructuras, S.L.U. á Spáni, ÞG verktakar ehf. í Reykjavík og Ístak hf í samvinnu við Per Aarsleff A/S og Freyssinet Int. fyrir hönd óstofnaðs félags í Reykjavík.

„Ég er mjög spennt,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar þegar þetta varð ljóst í dag. „Við erum hér með tvö öflug, íslensk verktakafyrirtæki, og annað þeirra er með erlenda samstarfsaðila, og svo erum við einnig með þrjá erlenda verktaka sem eru gríðarlega áhugaverðir og við verðum að skoða nánar. En það að við höfum fengið svona marga áhugasama þátttakendur í þessu samkeppnisútboði er mjög gott.“

Frétt á síðu Vegagerðarinnar

Fyrri grein57 starfsmönnum Árborgar sagt upp
Næsta greinSelfyssingar komnir í sumarfrí