Fimm teknir undir áhrifum

Í liðinni viku hafði lögreglan á Suðurlandi afskipti af fimm ökumönnum sem ýmist voru grunaðir um að aka bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða hvorutveggja í senn.

Þrír þeirra voru á ferðinni á Selfossi að næturlagi nú um helgina og svöruðu prófunum jákvætt bæði vegna áfengis og fíkniefna.

Á þriðjudag í síðustu viku var ökumaður gómaður í Hveragerði en hann er grunaður um að hafa ekið ölvaður á rafmagnskassa við heimili sitt og valdið þannig tjóni á kassanum og einnig á runnagróðri sem á vegi hans varð.

Sama dag var fimmti aðilinn handtekinn á Selfossi en sá er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að 31 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í umdæminu á þessu sama tímabili. Fjórir á þjóðvegi 1 á Mýrum, þrír á Skeiðarársandi, einn í Reynishverfisvegi við Vík þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst og ellefu á þjóðvegi 1 í Rangárvallasýslu og aðliggjandi vegum þar.

Tólf voru síðan stöðvaðir í Árnessýslu á sama tíma, bæði á þjóðvegi 1 og í uppsveitum.

Þá voru skráningarnúmer tekin af fjórum bifreiðum sem reyndust ótryggðar í umferðinni.