Fimm sunnlensk sveitarfélög fengu ljósleiðarastyrk

Fulltrúar fjarskiptasjóðs og sveitarfélaga skrifuðu í dag undir 24 samninga um styrki fjarskiptasjóðs vegna ljósleiðaravæðingar sveitarfélaga í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti samningana með undirskrift sinni og fór athöfnin fram í ráðuneytinu.

Þau sunnlensku sveitarfélög sem fengu styrki í þessari úthlutun voru Bláskógabyggð með tæpar 6,2 milljónir króna, Flóahreppur rúmar 74 milljónir, Grímsnes og Grafningshreppur rúmlega 39,9 milljónir, Skaftárhreppur tæpar 7,9 milljónir og Árborg fær rúmlega 9,9 milljón króna styrk.

Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki og fær Flóahreppur hæsta styrkinn. Auk styrkja frá Fjarskiptasjóði þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna. Í þeim tilfellum að sveitarfélag ætlar ekki að eiga og reka eigið kerfi greiða fjarskiptafyrirtæki fyrir það að eignast slík kerfi eða reka fyrir hönd sveitarfélagsins.

Fimmtán sveitarfélög fá byggðastyrki
Ráðherra skrifaði jafnframt undir samtals 100 milljón króna samninga við 15 sveitarfélög um sérstaka byggðastyrki á bilinu ein til 15 milljónir króna í tengslum við Ísland ljóstengt.

Landsátakið í ljósleiðaravæðingu, Ísland ljóstengt, hófst vorið 2016. Er þetta þriðja úthlutun samkeppnisstyrkja í tengslum við átaksverkefnið. Eftir er að semja um styrki vegna 1.500 staða af um 5.500 ótengdum styrkhæfum stöðum sem voru undir í verkefninu í upphafi.

Áhersla er lögð á hagkvæma samlegð með öðrum mögulegum veituframkvæmdum og hagkvæma nýtingu innviða sem fyrir eru. Markmið átaksins er að 99,9% lögheimila og fyrirtækja eigi kost á að minnsta kosti 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020.

Fyrri greinStundum er hundleiðinlegt í pólitík
Næsta greinEggert leiðir S-listann áfram