Fimm sagt upp hjá SASS

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa sagt upp fimm starfsmönnum af þrettán. Veruleg óánægja er með uppsagnirnar og segja starfsmenn þetta kaldar kveðjur.

Vísir.is greinir frá þessu.

„Þetta er mjög falleg jólagjöf,“ segir Dorothee Katrin Lubecki, ráðgjafi hjá SASS í samtali við Vísi, en hún hefur verið með starfsstöð á Selfossi. Hún segir að með þessu sé verið að fórna áratuga reynslu á þessu sviði á einu bretti.

Í sömu frétt er vitnað í Gunnar Þorgeirsson, formann SASS, sem segir að um almennar skipulagsbreytingar sé að ræða.

„Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þeim efnum,“ segir Gunnar og bendir á að til standi að efla tengsl við þær stofnanir sem fyrir eru svo sem þekkingarsetrið í Höfn, þekkingarsetrið í Eyjum, markaðsstofu Suðurlands og fleiri stofnanir vítt og breytt um hinar dreifðari byggðir Suðurlands. „Og eftir stjórnarfund var þessi niðurstaðan,“ segir Gunnar.

Frétt Vísis

Fyrri greinSebastian stal senunni
Næsta greinBæði Hamarsliðin töpuðu naumlega