Fimm milljónir í öskuhreinsun

Fimmtíu milljónum króna var úthlutað úr Pokasjóði verslunarinnar í dag. Hæsti styrkurinn fer til öskuhreinsunar í Þórsmörk.

Þrír af hæstu styrkjunum, samtals 9,5 milljónir fara til verkefna á Suðurlandi. Útivist og Ferðafélag Íslands fengu 5 milljónir til öskuhreinsunar í Þórsmörk, Landgræðslufélag Biskupstungna fékk 3 milljónir til uppgræðslu á Haukadalsheiði og sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra á Laugarvatni fengu 1,5 milljón.

Meðal annarra sunnlenskra verkefna má nefna að Slóðavinir fengu hálfa milljón til þess að gera kort af Hellisheiði, Framfarafélag Þykkvabæjar fékk milljón til flóðavarna og uppgræðslu og líknarfélagið Bergmál fékk sömu upphæð vegna orlofsvikna langveikra á Sólheimum í Grímsnesi.

Þá fékk Fuglavernd eina milljón til uppbyggingar friðlandsins í Flóa, Útilífsmiðstöð skáta fékk eina milljón til uppbyggingar á Úlfljótsvatni og Hellismenn fengu hálfa milljón í merkingar á gönguleiðum við Landmannahelli.

Úthlutunin fór fram í veitingahúsinu Nauthól í Nauthólsvík þar sem milljónunum fimmtíu var úthlutað til 55 verkefna á sviði umhverfismála, menningar, mannúðar, íþrótta og útivistar um allt land. Með þessari úthlutun hefur Pokasjóður alls úthlutað einum milljarði króna frá því sjóðurinn tók til starfa árið 1995.