Fimm innbrot við Sogsbakka upplýst

Aðfaranótt föstudags handtóku lögreglumenn á Selfossi þrjá menn vegna innbrots í tvo sumarbústaði við Sogsbakka í Þrastarskógi. Handtakan leiddi til þess að fjórir til viðbótar voru handteknir í Reykjavík.

Auk fíkniefna fundust flatskjár, leikjatölva og fleiri munir í bifreið mannanna. Vegna grunsemda um að þremenningarnir hefðu brotist inn í sumarbústaði var grennslast frekar um málið.

Með aðstoð lögreglu á höfuðborgarsvæðinu voru fjórir menn handteknir í Reykjavík vegna rannsóknar málsins. Við húsleitir í Reykjavík fundust stolnir flatskjáir og fleiri illa fengnir munir. Við eina húsleitina fundust tuttugu kannabisplöntur sem voru í ræktun á byrjunarstigi. Allir hinir handteknu voru fluttir til yfirheyrslu á lögreglustöðina á Selfossi.

Við rannsókn málsins upplýstust fimm innbrot í sumarbústaði við Sogið þar sem mörgum verðmætum hlutum var stolið svo sem stórum flatskjáum, hljómflutningstækjum og fleiru. Því til viðbótar varð nokkurt tjón varð á hurðabúnaði og gluggum eftir innbrotsþjófanna sem voru á aldrinum 15 til 18 ára af fjórum þjóðernum.

Þeir höfðu farið fjórar ránsferðir austur bæði að degi og að nóttu. Lögreglan var með aðgerðaráætlun í gangi vegna innbrotanna sem leiddi til handtöku ungmennanna.

Rannsóknin var nokkuð umfangsmikil og komu að henni ásamt lögrelgumönnum á Selfossi og höfuðborgarsvæðinu barnaverndaryfirvöld og túlkar.

Fyrri greinHraungos líklega hafið
Næsta greinÍris Böðvars: Stækkum Litla-Hraun