Fimm hafa stöðu sakbornings

Tólf voru yfirheyrðir í gær vegna fólskulegrar líkamsárásar við Hvítahúsið á Selfossi á sunnudagsmorgun.

Lögreglan fékk tilkynningu um kröftug slagsmál við Hvítahúsið um kl. 4 á sunnudagsmorgun. Þegar lögreglan kom á staðinn skömmu síðar var heitt í kolunum á milli manna og einn lá í valnum eftir fautaárás sem fimm ungir menn stóðu að.

Sex einstaklingar voru handteknir á staðnum og fluttir á lögreglustöð. Fjórir þeirra voru færðir í fangageymslur á meðan rannsókn fór fram. Fimm þeirra hafa stöðu sakbornings. Rannsókn er á lokastigi og að mestu upplýst.

Aðdragandi árásarinnar var sá að maður hafði uppi sóðatal við annan mann sem reiddist og varð til þess að á hann var ráðist.

Árásarþolinn brotnaði á úlnlið og hlaut slæma áverka á höfði eftir spörk og hnefahögg. Hann var fluttur á slysadeild Landspítala en var útskrifaður eftir að gert var að sárum hans.

Fyrri greinVörubílspallur fauk á hús
Næsta greinEldingu sló niður í Hellisheiðarvirkjun