Fimm á sjúkrahús eftir harðan árekstur

Harður árekstur varð á Suðurstrandarvegi skammt frá Þorlákshöfn laust eftir klukkan tvö í dag.

Þarna mættust fólksbíll og amerískur sjö manna bíll. Ökumaður annars bílsins gleymdi sér við aksturinn og fór yfir á öfugan vegarhelming. Þegar hann áttaði sig beygði hann frá en framhorn bílanna skullu saman.

Við áreksturinn valt annar bíllinn tvær veltur útfyrir veg. Fimm voru í þeim bíl og voru þeir allir fluttir á slysadeild í Reykjavík. Ekki er ljóst á þessari stundu hver meiðsli þeirra voru en lögregla telur að fólkið hafi sloppið mjög vel frá árekstrinum miðað við aðstæður.

Fjórir erlendir ferðamenn voru í hinum bílnum og gátu þeir haldið ferð sinni áfram eftir að hafa fengið nýjan bílaleigubíl.

Neyðarlínunni bárust boð um slysið kl. 14:12 í dag og fór lögreglan á Selfossi á staðinn ásamt tveimur sjúkrabílum.

Fyrri greinBjarni Harðar: Obbobobb, er ný brú á leiðinni?
Næsta greinULM-myndir: Sunnudagur