Fimleikakrakkar í klakaböndum

Það hefur verið mikið um að vera í íþróttahúsi Vallaskóla í dag þar sem fimleikadeild Umf. Selfoss undirbýr sína árlegu jólasýningu sem verður sýnd þrívegis á morgun.

Þetta er níunda sýningin í röðinni en að þessu sinni verður íþróttahúsinu í Vallaskóla breytt í Frozen-veröld.

Sigrún Ýr Magnúsdóttir, dansþjálfari fimleikadeildarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að undirbúningurinn fyrir stóra daginn hafi staðið síðan í október. „Við byrjuðum að skipuleggja þetta í október en við byrjum ekki að þjálfa börnin fyrr en tveimur vikum fyrir sýningu. Svo smellur þetta saman hérna í salnum nánast á einum degi,“ segir Sigrún en allir iðkendur fimleikadeildarinnar taka þátt í sýningunni.

„Við erum með tæpa 500 iðkendur á þessum þremur sýningum. Yngstu iðkendurnir, átta ára og yngri, skipta sér á sýningarnar þrjár en níu ára og eldri taka þátt í öllum sýningunum,“ segir Sigrún Ýr og bætir við að áhorfendur eigi von á glæsilegri sýningu.

„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi aldrei verið glæsilegra. Við bætum alltaf í á milli ára og reynum að toppa okkur. Við höfum náð að fylla stúkuna á nánast öllum sýningum undanfarin ár og fólk hefur verið að mæta snemma til þess að ná sér í góðu sætin.“

Sýningarnar verða kl. 9:30, 11:30 og 13:15 og er aðgangseyrir 1000 krónur fyrir þrettán ára og eldri. Miðasalan er í anddyri Vallaskóla og er fólk hvatt til að mæta tímanlega.