Festu bílinn í Álftavatnakróki

Björgunarsveitin Stjarnan í Skaftártungu sótti í dag erlenda ferðamenn er fest höfðu bíl sinn á grjóti í á.

Ferðafólkið sagðist vera í Hólmsá á Fjallabaksleið syðri en þegar björgunarsveitin kom þar var enginn á staðnum. Var þá ákveðið að athuga með fólkið í Álftavatnakróki, sem liggur á milli Fjallabaksleiða nyrðri og syðri og reyndust ferðalangarnir sitja fastir þar.

Áin er ekki vatnsmikil en botninn er grófur og erfiður yfirferðar og því getur verið snúið fyrir ókunna að þvera hana.

Björgunarsveitin flutti fólkið til byggða og tilkynnti eiganda bifreiðarinnar, sem er bílaleiga, um staðsetningu og ástand hennar en bíllinn er töluvert skemmdur og ekki ökufær.

Fyrri greinSelfyssingar segja Gunnari upp
Næsta greinStolinn Land Rover sást síðast á Skeiðavegi