Festist í aurbleytu utan vegar

Upp úr klukkan 20 í gærkvöldi voru björgunarsveitir í uppsveitum Árnessýslu boðaðar út vegna ferðamanns sem talinn var í vændræðum í nágrenni við Hagavatn.

Þar var einn á ferð erlendur ferðamaður, en sökum tungumálaörðugleika var óljóst hvar hann var staddur og hvers konar vandræðum hann væri í.

Þegar björgunarsveitir voru komnar vel áleiðis barst nákvæmari staðsetning frá Neyðarlínunni og því ekki lengur um leit að ræða, eins og leit út fyrir í upphafi.

Ferðamaðurinn var þá staddur suður af Hagavatni og hafði farið slóða frá Skjaldbreiðarvegi, vestan við Brekknafjöll. Þar hafði hann ekið fram á bleytur í slóðanum og ákveðið að krækja framhjá þeim, en ekki vildi þá betur til en svo að bíllinn festist í aurbleytu, á svæði sem er nýlega komið undan jökli.

En bíllinn var ekki bara fastur, heldur hafði einnig rifnað dekk og því ljóst að ferð yrði ekki haldið áfram.

Björgunarsveitir nýttu sérstakan loftpúða til að lyfta bílnum í aurbleytunni og skipta um dekk og í framhaldinu var hann dreginn upp úr festunni.

Ferðamanninum var svo fylgt niður að Geysi þar sem hann hélt áfram för á eigin vegum og björgunarsveitir héldu heim.

Ljósmynd/Landsbjörg

Fyrri greinHellisheiði lokuð vegna malbikunar
Næsta greinVonir Árborgara dvína