Ferðamenn skripla á klöpp undir fossinum

Frá útkallinu við Kvernufoss í gær. Ljósmynd/Þorsteinn Jónsson

Björgunarsveitirnar Dagrenning, Bróðurhönd og Víkverji voru kallaðar að Kvernufossi undir Eyjafjöllum í gær þar sem bera þurfti slasaðan ferðamann að sjúkrabíl. Viðkomandi var líklega ökklabrotinn.

Í Facebookfærslu frá Dagrenningu segir að það sé engin nýung að sækja þurfi slasaða inn Kvernugil, en um klöngur um kletta var að fara að fossinum. Nú eru þó kominn góður göngustígur að fossinum og fólk hætt að slasast á leiðinni eins og var.

Hins vegar hafa á þessu ári komið þrjú útköll þar sem menn slasa sig undir fossinum, en þar er hliðarhalli á lausri mósteinsklöpp sem fólk skriplar á, hugfangið að horfa upp á herlegheitin frekar en niður fyrir fætur sér. Björgunarsveitin vill vara ferðafólk við því að þarna er lausamöl og hættulegt undirlag, og því rétt að fara varlega.

Fyrri greinÁlfheimar fá 3 milljón króna styrk
Næsta greinJóhanna Ýr valin í úrvalsliðið