Ferðalangur á fíkniefnum stöðvaður í Ölfusi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 32 ökumenn fyrir að aka of hratt í vikunni. Helmingur þeirra var á ferðinni í Öræfum og þar fyrir austan.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka á meiri hraða en 140 km/klst og voru báðir á Mýrdalssandi.

Einn þeirra ökumanna sem ók of hratt reyndist undir áhrifum fíkniefna. Hann ók bifreið sinni á 113 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Kögunarhól þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Sá var á ferðalagi hérlendis með félaga sínum en félaginn reyndist með lítilræði af fíkniefnum í fórum sínum. Ökumaðurinn gat ekki framvísað staðfestingu á gildum ökuréttindum.

Annar aðili er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna en hann kom á lögreglustöðina á Selfossi annarra erinda en var handtekinn þegar ljóst varð um ástand hans. Tveir einstaklingar eru grunaðir um ölvun við akstur, annar á Selfossi en hinn í Hveragerði.

Fyrri grein„Svekkjandi að fá ekkert út úr þessu“
Næsta greinAtvinnubílstjórar þurfa að skoða ökuskírteinin sín