Ferðamennirnir sýndu hárrétt viðbrögð

Atvikið við Langjökul í gær, þar sem tveir ferðamenn á vélsleða urðu viðskila við hópinn sinn verður rannsakað gaumgæfilega að því er fram kemur í tilkynningu frá Mountaineers of Iceland.

Ferðaþjónustufyrirtækið sendi frá sér tilkynningu í lok dags þar sem öllu því björgunarsveitafólki sem tók þátt í leit og björgun fólksins, sem varð viðskila við hóp á vegum fyrirtækisins, eru færðar hugheilar þakkir.

Í tilkynningunni segir að leiðsögumenn Mountaineers of Iceland þekki svæðið sem hópurinn fór um mjög vel, en þeir hafa samanlagt áratugareynslu í ferðum á svæðinu.

Eins og fram hefur komið hafði verið gefin út stormviðvörun en vegna hagstæðrar vindáttar á svæðinu var ákveðið að fara af stað upp að jöklinum eftir að leiðsögumenn fóru á undan hópnum til að kanna aðstæður sem að þeirra mati reyndust ágætar. Vegna fyrri reynslu leiðsögumanna, góðrar þekkingar á svæðinu og hagstæðrar vindáttar var ákveðið að halda af stað.

Mountaineers of Iceland tekur öryggi allra þeirra sem ferðast á vegum fyrirtækisins alvarlega og setur velferð ferðamanna ávallt í fyrsta sæti. Ferðamennirnir sýndu hárrétt viðbrögð með því að fara eftir leiðbeiningum sem gefnar höfðu verið í upphafi ferðar og bíða við vélsleðann um leið og þeir áttuðu sig á að þeir höfðu orðið viðskila við hópinn. Þessi viðbrögð má þakka góðum undirbúningi leiðsögumanna Mountaineers of Iceland áður en lagt er af stað í ferðina, að því er segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Atvikið verður rannsakað gaumgæfilega og farið verður í saumana á öllu því sem kom upp á öllum stigum málsins. Í kjölfarið verður verklag skoðað og hvort eitthvað megi endurskoða með tilliti til þessa atviks.

Fyrri greinGestirnir voru sterkari í lokin
Næsta greinBæjarráð vill flýta byggingu og stækka hjúkrunarheimilið á Selfossi