Ferðamenn fastir á Kili – „Þetta er rétt að byrja“

Björgunarsveit Biskupstungna er á leið upp að Hvítárvatni á Kili til þess að sækja þar tvo veðurteppta Þjóðverja.

Að sögn Viðars Arasonar, hjá svæðisstjórn björgunarsveita, er ferðafólkið fast í kolvitlausu veðri á litlum jepplingi.

„Það má segi að veðrið hafi brostið á á slaginu klukkan tvö og útkallið frá Þjóðverjunum barst um það leyti,“ segir Viðar.

Björgunarsveitir á Hellu og í Árborg hafa einnig sinnt fokútköllum eftir hádegi í dag, meðal annars þurfti að festa þakplötur á Stokkseyri og segir Viðar að mjög hvasst sé við ströndina, á Stokkseyri, Eyrarbakka og í Þorlákshöfn.

„En þetta er bara rétt að byrja. Svæðisstjórnin hér á svæði 3 hefur verið virkjuð og við hvetjum fólk til að halda sig innan dyra og vera ekki að ferðast að óþörfu. Það má búast við að veðrið á Suðurlandi verði verst um klukkan 21 í kvöld. Það er ágætt fyrir fólk að setja símann í hleðslu núna og hafa tilbúin vasaljós ef rafmagnið fer af,“ segir Viðar og ráðleggur fólki einnig að sofa ekki undir gluggum sem eru vindmegin í íbúðarhúsum.

Fyrri greinMargt líkt með mannlífinu en andstæðurnar líka margar
Næsta greinUm tuttugu útköll í Árnessýslu