Ferðir Strætó raskast

Strætisvagnaferðir um Suðurland munu raskast talsvert í dag, og breyting verður á leiðakerfi Strætó um leið og Ölfusárbrú verður lokað í dag.

Hellisheiði var lokað til austurs kl. 7 í morgun þar sem verið er að malbika báðar akreinar fyrir neðan Hveradali. Þeim framkvæmdum mun ljúka um miðnætti.

Á meðan ekur Strætó um Þrengsli og í gegnum Hveragerði til Selfoss.

Eftir klukkan 16 munu leiðir 51 og 52 aka um Þrengsli og Eyrarbakkaveg til Selfoss. Biðstöðin í Hveragerði verður því óvirk það sem eftir lifir degi. Stoppað verður á Eyrarbakka fyrir þá farþega sem vilja nýta sér það. 25 mínútu bætast við ferðir á leiðum 51 og 52 sem aka milli Selfoss og Reykjavíkur og stoppistöðin Selfoss-Olís verður óvirk á meðan á framkvæmdum stendur.

Þegar brúnni hefur verið lokað tekur við bráðabirgðaáætlun á leiðum 72 og 73. Á leið 73 verða stoppistöðvarnar Þrastalundur og Borg Grímsnesi óvirkar á sama tíma. Leið 72 verður ekki ekin á framkvæmdatímanum.

Gert er ráð fyrir því að þessar bráðabirgðaáætlanir verði í gildi út föstudaginn 17. ágúst.

Fyrri greinEllefu próflausir ökumenn stöðvaðir
Næsta greinMatthías aftur í Selfoss