Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli var kölluð út í dag vegna erlendra ferðamanna sem sátu fastir í á í bíl á Emstruleið í Fljótshlíð. Höfðu þeir ætlað að stytta sér leið yfir í Þórsmörk og aka yfir Markarfljótið.
Fljótið reyndist of djúpt fyrir bílinn, þrátt fyrir að um breytta jeppabifreið væri að ræða, svo vatn flæddi yfir vélarhlífina þannig að vélin stöðvaðist.
Þrennt var í bílnum og komst fólkið á þurrt með aðstoð ferðaþjónustuaðila sem var á ferðinni við Gígjökul. Sá er jafnframt í björgunarsveitinni Dagrenningu og fékk því útkallsboðin sem varð til þess að hann fór að athuga málið. Í fyrstu var ekki vitað um nákvæma staðsetningu bifreiðarinnar í ánni en ferðaþjónustuaðilinn fann hana fljótlega eftir að hann fór að svipast um.
Björgunarsveitin kom svo á staðinn um 20 mínútum eftir að útkallið barst og kom ferðafólkinu til byggða. Það var blautt eftir volkið en sakaði ekki.