Ferðamálaverkefni fá 123 milljónir

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur úthlutað 21 styrk til ferðamálaverkefna á Suðurlandi, alls að upphæð rúmlega 123 milljón króna. Flest verkefnin virðast vera tilflutningur á fjármagni úr einum opinberum vasa í annan.

Alls var úthlutað til 50 verkefna um land allt. Hæstu styrkirnir komu í hlut opinberra og hálfopinberra aðila. Þannig hlaut Vatnajökulsþjóðgarður tæpar 30 milljónir króna til viðbyggingar við núverandi aðstöðu í Skaftafelli og rúmar 13 milljónir króna vegna uppbyggingar við Langasjó, en þar stendur til að byggja upp áningaraðstöðu fyrir ferðamenn. Jafnframt var þjóðgarðinum úthlutað 3,1 milljón króna til að byggja göngubrú yfir jökulánna Kolgrímu.

Umhverfisstofnun hlaut styrki vegna verkefna á Suðurlandi, þannig er áætlað að rúmar 10 milljónir króna fari í gerð nýs stiga á milli efra- og neðra svæðisins við Gullfoss og 8,2 milljónir til endurgerðar útsýnispallsins við Gullfoss og gerð göngustíga beggja vegna við hans.

Rangárþing ytra fær tíu milljónir til að halda samkeppni um hönnun og skipulag fyrir Landmannalaugar og Rangárþing eystra 8, 5 milljónir til hönnunar og smíði á járntröppum og palli norðan megin við Seljalandsfoss ásamt enduruppbyggingu og viðgerð á stígnum milli Seljalandsfoss og Hamragarða. Rangárþing eystra er einnig styrkt um 2,2 milljónir vegna hönnunar og framkvæmdar á útsýnispalli á útsýnissvæði fyrir miðri brekku við Skógafoss.

Minjastofnun Íslands hlýtur 10 milljón króna styrk úr sjóðnum til gerðar göngustíga og áningarstaða við bæinn Stöng í Þjórsárdal. Heildarstyrkir til lagfæringa og framkvæmda í Reykjadal nema um 9 milljónum króna en styrkirnir lenda hjá Hveragerðisbæ til deiliskipulags fyrir aðkomu og bílaplan fyrir gönguleiðina inn í Reykjadal, og Sveitarfélaginu Ölfusi til að laga aðgengi að heitum læk, laga stíga og hættur við hveri ásamt því að koma fyrir snyrtingu og merkingum.

Katla jarðvangur Geopark fær rúmar 4,5 milljónir til hönnunar og framkvæmda við Fagrafoss, Hólmsárfoss, Þykkvabæjarklaustur, Loftsalahelli og Dyrhólaós, Höfðabrekkuheiði, Steinahelli, Pöstina og aðstöðu við níu staði í Kötlu jarðvangi með því markmiði að fjölga áningarstöðum ferðamanna og dreifa álagi.